Blog Layout

Ný vefsíða Hollvina Sjúkrahússins á Akureyri komin í loftið

Katrín Árnadóttir • 12. nóvember 2024
fad fad

Á dögunum fór ný vefsíða Hollvina SAk í loftið í boði Stefnu hugbúnaðarhúss.

Vefsíðan er einföld í notkun og þar birtast fréttir af því góða starfi sem Hollvinir vinna með því að styrkja og styðja við sjúkrahúsið. Ennfremur er þar hægt að gerast Hollvinur með einföldum hætti og panta minningarkort til styrktar samtökunum. Með nýju vefsíðunni vonast stjórnin til að ná til fleiri félagsmanna og efla starfsemina enn frekar.

„Nú í aðdraganda jóla förum við á fullt í að safna fleiri félagsmönnum og þá er gott að eiga þægilega að aðgengilega vefsíðu í farteskinu þar sem auðvelt er að skrá sig í samtökin,“ segir Jóhannes Bjarnason formaður Hollvina.

Vefsíðan er ætluð sem vettvangur til að miðla upplýsingum og auðvelda áhugasömum að taka virkan þátt í starfinu. Það er von stjórnarinnar að nýja vefsíðan muni bæta samskiptin við núverandi og tilvonandi félagsmenn, og gera fólki auðveldara að sýna stuðning í verki.


Fleiri fréttir

Eftir Katrín Árnadóttir 27. janúar 2025
Hollvinir færðu á dögunum legudeild geðdeildar rausnarlegar gjafir í formi húsgagna. Þegar höfðu borist stólar og borð inn í viðtalsherbergin, stofuborð í dagstofu, tveir lazyboystólar í öryggisenda deildarinnar og í gær kom svo einnig stórt sjónvarp fyrir öryggisstofuna. Undanfarið hafa umfangsmiklar breytingar verið gerðar á legudeildinni með það að markmiði að bæta aðstöðu bæði sjúklinga og starfsfólks. Með tilkomu húsgagnanna frá Hollvinum má segja að umbæturnar hafi náð enn lengra. MYND FV.: Konráð Gylfason, framkvæmdastjóri rekstrar og klínískrar stoðþjónustu, Inga Margrét Árnadóttir, meðstjórnandi Hollvina, Jóhann Rúnar Sigurðsson, varaformaður Hollvina, Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk, Hermann Haraldsson, gjaldkeri Hollvina, Bjarni Jónasson, meðstjórnandi Hollvina, Jóhannes G. Bjarnason, formaður Hollvina, Bernard Hendrik Gerritsma, deildarstjóri geðdeildar og Valborg Lúðvíksdóttir, aðstoðardeildarstjóri geðdeildar. Myndina tók Skapti Hallgrímsson.
Eftir Katrín Árnadóttir 16. desember 2024
Mikil stemming ríkti á Glerártorgi á laugardaginn þegar Hollvinir Sjúkrahússins á Akureyri héldu sinn árlega Dag sjúkrahússins. Fjöldi fólks lagði leið sína á viðburðinn þar sem boðið var upp á heilsufarsmælingar og félagar í stjórn Hollvina skráðu nýja meðlimi í samtökin. Einn vinsælasti viðkomustaðurinn var dúkku- og bangsaspítalinn þar sem börn fengu að koma með dúkkur og bangsa í skoðun. Í nokkrum tilfellum þurfti að sauma bangsa eftir nákvæma skoðun. Aðrir fengu plástra eða umbúðir fyrir tuskudýrin sín. „Það er varla hægt að hugsa sér jól án þess að við Hollvinir stöndum vaktina á Glerártorgi,“ sagði Jóhannes G. Bjarnason, formaður Hollvina. „Á þessu ári höfum við náð að gera mikið gagn fyrir sjúkrahúsið með framlögum okkar. Meðal annars höfum við gefið hitakassa, þvottavélar fyrir speglunardeild, öndunarmælingatæki og tvær glænýjar speglunarstæður.“ Hann bætti við að á næsta ári muni samtökin ekki slá slöku við og halda ótrauð áfram söfnun fyrir tækjum og búnaði. Á nýrri heimasíðu samtakanna er hægt að skrá sig sem félaga eða styrkja samtökin með peningagjöf - sjá hér. Ragnheiður Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga SAk stóð einnig vaktina með stjórn Hollvina: „Hollvinir eru okkur ómetanlegir. Þeir styðja við starfsemi sjúkrahússins á svo margan hátt og hjálpa okkur að bæta þjónustu við sjúklinga.“ Dagur sjúkrahússins tókst afar vel og var góð þátttaka til marks um sterka tengingu samfélagsins við sjúkrahúsið og Hollvini. Fleiri myndir má sjá á Facebook-síðu Hollvina hér.
Eftir Katrín Árnadóttir 16. desember 2024
Barnadeild Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) hefur fengið nýjan og fullkominn hitakassa af gerðinni Babyleo frá Dräger. Kassinn leysir af hólmi eldri gerð sem komin var til ára sinna og ekki lengur hægt að fá varahluti í. Nýi hitakassinn er bæði notendavænn og auðveldur í umgengni og mun nýtast afar vel á hágæslu nýbura á barnadeildinni. Á deildina leggjast inn veikir nýburar og fyrirburar sem fæddir eru eftir 34 vikna meðgöngu og eru hitakassar lykilbúnaður í meðferð þeirra. Á ári hverju leggjast um 40-60 börn inn á hágæslu nýbura og þurfa þau nánast alltaf að fá fyrstu meðferð í hitakassa. Oftast er um að ræða innlögn strax eftir fæðingu eða á fyrstu dögum eftir hana. Gjafmildi Hollvina hefur því tryggt barnadeildinni þennan nýja og mikilvæga búnað sem mun bæta aðbúnað nýburanna og stuðla að betri umönnun þeirra. „Það er ekki amalegt að fá slíkar gjafir frá Hollvinum og við erum mjög þakklát,“ segir Aðalheiður Guðmundsdóttir, deildarstjóri barnadeildar.
Eftir Bjarni Jónasson 10. desember 2024
Dagur sjúkrahússins fer fram á Glerártorgi á laugardag 14. desember milli kl. 14 og 16. Starfsfólk SAk býður upp á mælingu á blóðþrýstingi, súrefnismettun og púlsi. Félagsmenn í hollvinasamtökunum kynna samtökin og skrá nýja félaga. Þar að auki verður bangsa- og dúkkuskoðun í boði þar sem börnum býðst að koma með uppáhaldsleikfangið sitt í læknisskoðun. Við hlökkum til að sjá ykkur sem flest.
Eftir Katrín Árnadóttir 29. nóvember 2024
Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) gáfu rannsóknarstofu lífeðlisfræðideildar SAk á dögunum nýtt öndunarmælingartæki. Nýja tækið (Vintus One) gefur möguleika á mismunandi tegundum öndunarmælinga, s.s. fráblástursmælingu, loftdreifiprófi, mælingu á rúmmáli lungna og sveiflumælingu. Aukin þjónusta – færri ferðir suður í rannsóknir „Með nýja tækinu getum við betur samræmt lungnarannsóknir á SAk við þær sem eru gerðar á Landspítala og bætt samstarf við sérfræðinga sem eru staðsettir þar. Með tilkomu tækisins getum við aukið þjónustu við einstaklinga á upptökusvæði SAk sem annars þyrftu að fara suður í rannsóknir. Lungnasérfræðingar sem eru staðsettir í Reykjavík geta nú fengið rannsóknir gerðar hér en það gefur jafnvel möguleika á auknu fjareftirliti þegar það hentar“ segir Jónína Þuríður Jóhannsdóttir, yfirlífeindafræðingur á rannsóknarstofu í lífeðlisfræði á SAk. Á myndinni frá vinstri: Telma Hrund Davíðsdóttir, sjúkraliði, Gunnar Þór Gunnarsson, yfirlæknir, Jóhannes G. Bjarnason, formaður Hollvina, Hermann Haraldsson, gjaldkeri Hollvina, Jónína Þuríður Jóhannsdóttir, yfirlífendafræðingur á rannsóknarstofu í lífeðlisfræði á SAk, Jóhann Rúnar Sigurðsson, varaformaður Hollvina og Birna Björgvinsdóttir, líftæknir á rannsóknarstofu í lífeðlisfræði á SAk. Myndina tók Skapti Hallgrímsson.
4. október 2024
Hollvinir Sjúkrahússins á Akureyri komu á dögunum færandi hendi með nýjar speglunarstæður á skurðstofur stofnunarinnar, eins og Akureyri.net greindi frá í síðustu viku. Þeir létu ekki þar við sitja heldur færðu speglunardeild einnig tvær nýjar þvottavélar. Þær taka við hlutverki eldri véla sem komnar voru til ára sinna og farnar að bila ítrekað. Starfsmenn segja mikilvægt að geta haldið úti ristil- og magaspeglunum með almennilegum þvottavélum fyrir tækin.
23. september 2024
Hollvinir Sjúkrahússins á Akureyri færðu í dag skurðstofum stofnunarinnar formlega tvær glænýjar speglunarstæður sem taka við af þeim sem komnar voru til ára sinna. Speglunarstæður eru notaðar til að gera ýmiskonar aðgerðir þar sem hægt er að komast af með litla skurði. Þessar nýju veita bestu mögulegu tækni til að meðhöndla vandamál við góðar og öruggar vinnuaðstæður sem tryggja enn betur öryggi skjólstæðinga, skv. upplýsingum frá stofnuninni.
1. júní 2024
Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri gáfu nýlega gjörgæsludeild stofnunarinnar eitt hágjörgæslurúm, að verðmæti 8,5 milljónir króna. Myndin var tekin á gjörgæsludeildinni í gær þegar rúmið var formlega afhent – þá var það reyndar í notkun en samtökin höfðu áður gefið rúmið sem fjórmenningarnir standa við.
Eftir Katrín Árnadóttir 16. janúar 2024
Svonefnd hryggsjá, eins konar leiðsögutæki fyrir stórar aðgerðir á hryggsúlunni, var formlega afhent í júní byrjun. Tækið var tekið í notkun um áramótin. „Tækið kostar um 40 milljónir króna og er stærsta einstaka verkefnið sem hollvinasamtökin hafa ráðist í til þessa,“ segir Jóhannes Gunnar Bjarnason, formaður samtakanna. Tekist hafi að fjármagna kaupin að fullu með söfnunarfé.
Eftir Katrín Árnadóttir 28. nóvember 2023
Dagur sjúkrahússins var haldinn að venju á Glerártorgi, að þessu sinni laugardaginn 25. nóvember. Hér má sjá svipmyndir frá deginum.
Eftir Katrín Árnadóttir 16. júní 2023
Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) fagna 10 ára afmæli sínu á þessu ári. Af því tilefni blása Hollvinir SAk til garðveislu í Lystigarðinum á Akureyri fimmtudaginn 23. júní frá kl. 16 til 18. „Við ætlum að eiga ánægjulega stund með sem flestum Hollvinum SAk og öðrum sem vilja koma og gleðjast með okkur,“ segir Hermann Haraldsson, stjórnarmaður í samtökunum.
Eftir Katrín Árnadóttir 20. desember 2022
Eftir tveggja ára hlé vegna Covid faraldursins var dagur sjúkrahússins haldinn á ný með hefðbundnum hætti á Glerártorgi í desember og tókst vel.
Eftir Katrín Árnadóttir 16. nóvember 2022
Ómtæki á fæðingadeild Lífsmarkamælar ásamt fylgibúnaði á bráðalegudeildir Blöðruskannar fyrir Heimahlynningu Vökvadælur og meðferðarstólar á almennu göngudeildina
Eftir Katrín Árnadóttir 14. september 2022
Ákveðið var að kaupa 23 rafdrifin sjúkrarúm fyrir Kristnesspítala og verða þau formlega afhent fyrrihluta næsta árs. Þá voru gefin upphengisjónvörp í sjúkrastofur og í dagstofur og fundarherbergi.
Eftir Katrín Árnadóttir 14. apríl 2022
Byrjað var að safna fyrir hryggsjá sem er eins konar leiðsögutæki fyrir stórar aðgerðir á hryggsúlunni. Hún mun nýtast við skurðaðgerðir sjúklinga með hryggjarvanda sem ella þarf að senda erlendis.
Eftir Katrín Árnadóttir 22. desember 2021
Árið litaðist nokkuð af Covid faraldrinum eins og árið áður þegar kom að formlegri afhendingu tækja og búnaðar. En hollvinir unnu eftir sem áður að markmiðum sínum. Gjafir á árinu voru: Sérhæfð "barnaborð" fyrir barnadeild, skurðstofur og fæðingadeild Líkamskælivél með fylgihlutum fyrir Gjörgæslu Sjónvörp og fjarfundarbúnaður fyrir Kristnesspítala Heimilistæki fyrir íbúð Heimahlynningar Þegar um hægðist er leið á árið var tækifærið notað til afhendingar gjafa. Dagur sjúkrahússins sem haldinn hefur verið á Glerártorgi frá árinu 2014 féll niður vegna Covid faraldursins.
Eftir Katrín Árnadóttir 16. desember 2020
Árið litaðist af Covid faraldrinum þegar kom að formlegri afhendingu tækja og búnaðar. En Hollvinir unnu eftir sem áður að markmiðum sínum. Gjafir á árinu voru: Ómtæki á fæðingadeild 14 sjúkrarúm á fæðingadeild Ferðaöndunarvél fyrir sjúkraflug Hágæslurúm á gjörgæslu Hóstavél, og úðavélar á gjörgæslu Lasertæki fyrir æðahnútaaðgerðir og æðaskurðverkfæri Speglunartæki fyrir öndunarfæri Sjúkrarúm á blóðskilun Hjartalínuritstæki á rannsóknarstofu í lífeðlisfræði Önnur smærri tæki Dagur sjúkrahússins sem haldinn hefur verið á Glerártorgi frá árinu 2014 féll niður vegna Covid faraldursins.
Eftir Katrín Árnadóttir 31. desember 2019
Skurðstofuborð, æðasjá, ómhaus, dælur fyrir loftbrjóst, blóðmælir, áfengismælir og önnur smærri tæki. Kaffivélar á skurðstofu, svæfingu og á vörulager. Á myndinn er Hermann Haraldsson einn stjórnarmanna ásamt hjúkrunarfræðingum á skurðstofu og svæfingu.
Share by: